Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Kæra vegna synjunar Sjúkratrygginga Íslands um niðurfellingu vörugjalds á bifreið útbúnum tilteknum búnaði til flutnings einstaklings í hjólastól

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 003/2018

Mánudaginn 8. janúar 2018 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi til velferðarráðuneytisins, dags. 2. október 2017, framsendi úrskurðarnefnd velferðarmála kæru A, réttindagæslumanns fatlaðs fólks í Reykjavík, f.h. B, vegna synjunar Sjúkratrygginga Íslands um að samþykkja bifreið kæranda vegna umsóknar til tollstjóra um niðurfellingu á vörugjaldi.

Kærandi setur ekki fram formlega kröfu í málinu. Hins vegar má af kæru ráða að kærandi krefjist þess að endurskoðuð verði synjun Sjúkratrygginga Íslands um að samþykkja bifreið kæranda vegna umsóknar um niðurfellingu á vörugjaldi.

I. Málavextir.

Kærandi sem er námsmaður frá Evrópulandi kom til Íslands árið 2015 til að stunda hér nám. Þar sem kærandi er fötluð og þarf á sérútbúinni bifreið að halda flutti hún inn sérútbúna bifreið sína sem búin er Alfred Bekker stýribúnaði. Með umsókn, dags. 6. janúar 2017, óskaði kærandi eftir staðfestingu Sjúkratrygginga Íslands á því að bifreiðin væri með þessum búnaði en með staðfestingunni var ætlunin að fá vörugjald af bifreiðinni fellt niður með vísan til m-liðar 1. tölul. 4. gr.  laga nr. 29/1993 um niðurfellingu vörugjalds af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Þann 12. janúar 2017 synjuðu Sjúkratryggingar Íslands umsókn kæranda. Synjunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 14. mars 2017. Nefndin óskaði með bréfi, dags. 12. apríl 2017, eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands. Greinargerðin barst með bréfi dags. 25. apríl 2017 og var send umboðsmanni kæranda þann 2. maí 2017. Engar athugasemdir bárust við greinargerðina. Úrskurðarnefnd velferðarmála vísaði kæru frá með úrskurði, dags. 6. september 2017, þar sem ekki væri kveðið á um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvarðana Sjúkratrygginga Íslands á grundvelli m-liðar 1. tölul. 4. gr. laga  um niðurfellingu vörugjalds af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Því hafi nefndin ekki heimild til þess að fjalla um þann ágreining sem uppi sé í málinu. Nefndin áframsendi kæruna til velferðarráðuneytisins með bréfi, dags. 2. október 2017. Umboðsmaður kæranda óskaði, án frekari athugasemda, eftir því að ráðuneytið afgreiddi kæruna.

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi vísar til þess að hvergi í lögum eða reglugerðum sé að finna skilgreiningu á ,,öðrum sambærilegum búnaði“. Bifreiðin sem sé í eigu fatlaðrar konu sé sérstaklega útbúin, þ.e. bensíngjöf og bremsum sé stjórnað handvirkt, svo kærandi geti ekið bifreiðinni.  Áréttað sé að ekki hafi verið sótt um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands af neinu tagi en til að fá niðurfellingu vörugjalds hjá tollstjóra sé þess krafist að bifreið kæranda hafi verið útbúin sérstaklega fyrir fatlaðan einstakling og búnaður falli undir annan sambærilegan búnað sbr. lög nr. 29/1993. Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki vísað í samþykktar reglur þegar spurt hafi verið út í þeirra skilgreiningu á búnaði og því vilji kærandi fá úr því skorið hvort stofnunin geti túlkað lögin eins þröngt og gert sé.

 

III. Málsástæður kærða.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að stofnunin hafi gert mistök þegar bifreið í eigu kæranda hafi verið tekin út með tilliti til niðurfellingar á vörugjaldi. Bifreiðin sé án hjólastólalyftu eða sambærilegs búnaðar og falli því hvorki undir ákvæði laga nr. 29/1993 né reglugerð nr. 331/2000 um niðurfellingu á vörugjaldi, með síðari breytingum.

IV. Niðurstaða.

Úrskurðarnefnd velferðarmála framsendi mál þetta til velferðarráðuneytisins til meðferðar. Að mati ráðuneytisins hefur úrskurðarnefnd velferðarmála aflað nauðsynlegra gagna í málinu og kynnt þau málsaðilum. Umboðsmaður kæranda hefur ekki gert neinar athugasemdir við gögnin en óskað þess að ráðuneytið afgreiddi kæruna. Því tekur ráðuneytið málið til meðferðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Í m-staflið  1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. eins og honum var breytt með 18. gr.  laga nr. 33/2015, eru taldar upp bifreiðar sem undanþegnar eru vörugjaldi og segir:

,,Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðs fólks sem eru sérstaklega útbúnar fyrir fatlað fólk. Bifreiðarnar skulu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.“

Í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 33/2015 segir undir 2. tölulið í  Meginefni frumvarpsins,  14. tölulið: ,,Skilyrði vegna bifreiða fatlaðs fólks sem undanþegnar eru vörugjaldi:  ,,Orðalag m-liðar 1. tölul. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. hefur valdið embætti tollstjóra, sem fer með framkvæmd laganna, vandræðum. Með breytingu ákvæðisins er allur vafi tekinn af um að skilyrði niðurfellingar vörugjalda samkvæmt ákvæðinu er að bifreiðar séu búnar hjólastólalyftu eða sambærilegum búnaði. Með tækniþróun á sviði hjálpartækja á undanförnum árum standa fötluðum einstaklingum nú til boða ýmis önnur hjálpartæki en hjólastólalyftur. Þessi hjálpartæki eru til að mynda skábrautir og sérútbúin sæti með snúnings- eða lyftubúnaði. Hjálpartæki þessi kalla á umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar á bifreiðum rétt eins og þegar hjólastólalyftu er komið fyrir. Af þeim  sökum þykir rétt að bifreiðar sem breytt hefur verið með þessum hætti verði einnig undanþegnar vörugjöldum.“

Þá segir í athugasemdum við  1. mgr. 18. gr. frumvarpsins: ,,Í a-lið er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að skilyrði niðurfellingar vörugjalda samkvæmt ákvæðinu er að bifreiðar séu búnar hjólastólalyftu eða sambærilegum búnaði. Sambærilegur búnaður er til að mynda skábrautir og sérútbúin sæti með snúnings- eða lyftubúnaði.“

Samkvæmt framansögðu er ljóst að niðurfelling vörugjalds hjá tollstjóra er bundin breytingum á bifreið fyrir fatlað fólk sem þarf að nota hjólastól. Þá þurfa bifreiðarnar að vera samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja.

Í tölulið 1212 í fylgiskjali með reglugerð nr. 1155/2013 um hjálpartæki eru ákvæði um hjálpartæki í bifreið sem eru nauðsynleg vegna fötlunar ökumanns og nauðsynlegar breytingar á bifreiðinni svo sem breytingar á hemlabúnaði og bensíngjöf og breytingar vegna bílalyfta fyrir hjólastólanotendur. Lyftur í bifreiðar eru  samkvæmt fylgiskjalinu fyrir þá sem eru með verulega skerta færni í öllum útlimum.

Sjúkratryggingar Íslands hafa sett sér vinnureglur vegna úttektar og samþykktar stofnunarinnar um sérstakan útbúnað fyrir fatlað fólk í bifreið vegna niðurfellingar á vörugjaldi. Samkvæmt vinnureglunum sem taka mið af samnorrænum vinnureglum þarf bifreið að uppfylla eftirfarandi skilyrði um búnað:

1.   skábraut, hjólastólalyftu eða föstu sérútbúnu sæti með snúnings- og lyftubúnaði (sæti fer út úr bifreið í sætishæð við hjólastól),

2.   festingu fyrir hjólastóla,

3.   þriggja punkta öryggisbeltisfestingu fyrir farþega í hjólastólum.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 19. júlí 2016, er kærandi með sjúkdóminn Cerebral palsy sem veldur því að hún er ekki með fullnægjandi hreyfigetu eða skyn í ganglimum til þess að aka óbreyttri bifreið. Bifreið kæranda er af tiltekinni tegund og er útbúin með Alfred Bekker stýringarbúnaði, þ.e.a.s. kærandi stýrir hemlabúnaði og bensíngjöf handvirkt. Forsendur fyrir samþykki Sjúkratrygginga Íslands eru hins vegar breytingar á bifreið sem tengjast hjólastólanotkun. Breytingar á bifreið kæranda  eru ekki vegna hjólastjólanotkunar. Breytingar á bifreið kæranda uppfylla því ekki þau skilyrði um búnað sem sett eru fyrir samþykki stofnunarinnar vegna niðurfellingar vörugjalds hjá tollstjóra. Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 12. janúar 2017 á að samþykkja bifreið B, vegna umsóknar um niðurfellingu vörugjalds er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum